Icelandic Sustainable Fisheries og umhverfisvottaðar veiðar
Tilgangur Icelandic Sustainable Fisheries (ISF) er að afla vottana á veiðarfæri og fiskistofna sem nýttir eru við Ísland. ISF leitar vottana gagnvart staðli Marine Stewardship Council (MSC) en það eru sjálfstæðar og faggildar vottunarstofur sem meta og taka út fiskveiðar við Ísland samkvæmt þeim kröfum sem settar eru fram í MSC staðlinum.
Markmiðið er að sýna kaupendum og neytendum fram á það, að við Ísland eru eingöngu stundaðar sjálfbærar veiðar og að mikil vinna er lögð í það að fiskistofnar og umhverfi hafsins geti áfram verið uppspretta hagsældar í landinu vegna þekkingar og virðingar fyrir lífríki hafsins.
ISF var stofnað árið 2012 af fyrirtækjum í veiðum, framleiðslu og sölu íslenskra sjávarafurða. Hluthafar félagsins hafa einir rétt á því að selja vörur sinar sem MSC vottaðar. Vottunin opnar fyrir sölu sjávarafurða inn á markaði sem sérstaklega krefjast MSC vottunar þar sem neytendur kaupa síður eða ekki vörur án umhverfismerkinga eins og MSC.
Algengar spurningar og svör
Hvernig verður félag aðili að ISF? Samkvæmt samþykktum ISF er félagið opið öllum þeim sem óska eftir aðild. Nauðsynlegt er að greiða fyrir hlutaféð, kr. 1.765.000 og gera hluthafasamkomulag við ISF. Að því búnu hefur nýtt félag öðlast aðild að fiskveiðiskírteinum í eigu ISF og má selja vöru úr landi sem MSC vottaða. Fyrir framleiðendur og sölufyrirtæki er nauðsynlegt að hafa samband við vottunarstofu til að taka út og fá vottun á rekjanleika vöru í gegnum framleiðslu og söluleiðir.
Þá gildir sú regla, samkvæmt samþykktum félagsins, að dótturfélög geti fengið aðild að skírteinum móðurfélags án þess að gerast hluthafar og greiða hlutafé, enda hafi móðurfélagið þegar gert það og dótturfélög verða því ekki hluthafar. Til að deila skírteinum með dótturfélögum verða móðurfélög að tilkynna það en árlegt aðildargjald fyrir aukaðildina er 60% af fullu gjaldi.
Er tilgangur ISF að vera rekið með hagnaði? Félagið er rekið þannig að aðildargjöld eru nýtt til greiðslu reikninga frá vottunarstofum sem framkvæma mat á fiskistofnum, veiðarfærum og fiskveiðistjórnun samkvæmt MSC staðlinum. Árlegt aðildargjald er kr. 1.200.000 sem greiðist samkvæmt útsendum greiðsluseðlum frá ISF.
Hvernig sýna félög fram á aðild sína? Á sölureikningum er vísað í skírteinisnúmer þeirra tegunda sem eru á sölureikningi og hafa fengið vottun um sjálfbærni samkvæmt MSC staðlinum. Algengt er að á sölureikningum komi fram tilvísun til vefsíðu ISF þar sem er listi yfir þau fyrirtæki sem eiga aðild að ISF skírteinum og mega því selja MSC vottaðar afurðir.
Hverjir mega nýta MSC skírteinin í sínum útflutningi? Eingöngu þau félög sem eru með aðild að ISF, ásamt tilkynntum dótturfélögum. Það eru þessi félög sem greiða fyrir kostnað vegna vottana og viðhald skírteina og eiga skírteinin sem eru geymd og rekin hjá ISF.
Er ekki nóg að vera með rekjanleikavottun (e. Chain of Custody Certification) til að mega flytja út MSC vottaða vöru? Nei. Það er ekki nóg. Rekjanleikavottun þýðir að fyrirtæki getur höndlað með MSC vottaða vöru þannig að rekjanleikakeðjan slitnar ekki. En rekjanleikavottun og vottun á fiskistofna er alls ekki það sama. ISF á vottorðin fyrir fiskistofnana sem rekjanleikavottun veitir engin leyfi til að nýta. Eingöngu aðild að ISF heimilar útflutning á afurðum úr MSC vottuðum fiskveiðum við Ísland.